Innlent

Árás í verslun 10-11 á borði lögreglu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Í skeyti lögreglu kom fram að tveir menn hafi látið högg og spörk dynja á starfsmönnum eftir að þeir höfðu sakað mennina um þjófnað.
Í skeyti lögreglu kom fram að tveir menn hafi látið högg og spörk dynja á starfsmönnum eftir að þeir höfðu sakað mennina um þjófnað. Já.is
Lögreglan hefur ekki haft uppi á tveimur mönnum sem grunaðir eru um að hafa ráðist að starfsmönnum 10-11 á Laugavegi 116 skömmu eftir miðnætti í nótt.

„Við erum að fá upptökur af þessu núna á eftir og þá finnum við þá fljótt,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi í samtali við Vísi.

Hann segir að ekki hafi verið um rán að ræða heldur um líkamsárás á tvo starfsmenn.

„Sem betur fer eru þeir ekki alvarlega slasaðir,“ segir Guðmundur Páll og bætir við að ekki er talið að mennirnir hafi verið vopnaðir.

Í skeyti lögreglunnar í morgun kom fram að tveir menn hafi látið högg og spörk dynja á starfsmönnum eftir að þeir höfðu sakað mennina um þjófnað.

Árni Pétur Jónsson, framkvæmdastjóri 10-11, segist ekki geta tjáð sig um málið.

„Þetta er bara atburður sem átti sér stað þarna og hann hefur verið kærður til lögreglu. Lögreglan er með málið og þeir hafa fengið öll gögn. Við erum auðvitað með öryggiskerfi og myndavélar og annað slíkt og málið er bara í farvegi,“ segir Árni Pétur í samtali við Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×