Innlent

Vilja andrými og ekki missa útsýnið undir "endalausa turna“ á Skúlagötu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Íbúar umhverfis hornlóðina á Frakkastíg 1, sérstaklega á Skúlagötu 20 til vinstri, eru ósáttir við tillögu um byggingu átta hæða húss þar sem nú er bílastæði. Útsýni hverfi og verðmæti íbúða þeirra muni dragast saman.
Íbúar umhverfis hornlóðina á Frakkastíg 1, sérstaklega á Skúlagötu 20 til vinstri, eru ósáttir við tillögu um byggingu átta hæða húss þar sem nú er bílastæði. Útsýni hverfi og verðmæti íbúða þeirra muni dragast saman. Vísir/Ernir
Áform borgarinnar um að breyta skipulagi þannig að byggja megi átta hæða hús á Frakkastíg 1 mætir mikilli andstöðu í nágrenninu.

Bygging hússins er hluti af deiliskipulagstillögu frá borginni sjálfri sem tekur til tæplega eins hektara svæðis sem nær yfir óbyggða lóð á horni Skúlagötu og Frakkastígs og óbyggt borgarland milli Skúlagötu og Sæbrautar. Á fyrstu og annarri hæð á að vera verslun, þjónusta og önnur atvinnustarfsemi en á hinum hæðunum sex íbúðir, þar með taldar námsmannaíbúðir.



Breyta á gatnafyrirkomulagi þannig að tenging frá Skúlagötu að Sæbraut verði í beinu framhaldi af Frakkastíg „svo auðvelda megi aðkomu gangandi vegfarenda að Sólfarinu“, eins og segir í greinargerð með tillögunni sem enn er til meðferðar í borgarkerfinu.

Fram kemur í tillögunni að á svæðinu frá Lækjargötu að Snorrabraut séu uppi áætlanir um að efla hreyfingu og lýðheilsu almennings.

„Á Skúlagötunni sunnanvert verður því fléttað saman starfsemi á borð við veggtennis, klifur og þrektæki við rými þar sem boðið er meðal annars upp á jóga, dans, Müllersæfingar og ungbarnanudd,“ segir í greinargerðinni. Afmarkaðir verði staðir fyrir gufuböð og heita potta. „Eftir kalda göngu við sjávarkantinn eða spennuþrunginn leik verður hægt að stíga í heitan pott og horfa yfir á Esjuna.“

Þrátt fyrir þessa framtíðarsýn eru íbúar í kring uggandi. Það á sérstaklega við um þá sem búa á Skúlagötu 20 sem flestir eru aldraðir, elsti íbúðareigandinn er 95 ára.

„Við erum mjög uggandi um okkar hag, því þessi áform munu skerða okkar lífsgæði verulega sem búum vestanmegin í húsinu. Við munum sitja uppi með óseljanlegar íbúðir ef við viljum selja og flytja. Ég vona bara að þið munið hlusta á okkur og hætta við þennan fáránleika,“ segir í athugasemd frá Ingrid Backman Björnsdóttur á Skúlagötu 20.

Lögmaður húsfélagsins á Skúlagötu 20 segir að lífsskilyrði íbúa á Skúlagötu 20 muni skerðast með skuggavarpi og yfirþyrmandi ásýnd fyrirhugaðrar byggingar að Frakkastíg 1. „Skúlagata 20 verði ekki eftirsóknarvert hús að búa í, útsýni þaðan verði óaðlaðandi og sólskin ekki ná inn í tilteknar íbúðir sem muni leiða til skerðingar á bæði líkamlegri og andlegri heilsu þeirra sem þar búa, það er hinu aldraða fólki,“ segir í bréfinu. Hann krefst þess að byggingin verði felld út úr skipulaginu.

„Það sem íbúar Reykjavíkur þurfa er andrými og græn svæði en ekki endalausir turnar með sínum skuggum og vindstrengjum. Ég má ekki til þess hugsa að útsýnið úr stofuglugganum hjá mér næstu ár verði yfirþyrmandi byggingarframkvæmdir með tilheyrandi hávaða,“ segir í bréfi frá Sólveigu Jónsdóttur sem kveðst búa í lítilli íbúð vestan megin í Skúlagötu 20.

Formaður húsfélagsins í Skuggahverfi 2-3 segir ýmislegt jákvætt í skipulagstillögunni. Óánægja sé aðallega hjá íbúum á fyrstu til áttundu hæð á Lindargötu 37 og 39.

„Bygging þessa hús mun algerlega loka fyrir útsýni íbúa Lindargötu 37 til sjávar. Útsýni íbúa Lindargötu 39 mun skerðast til muna og hafa íbúar þar lýst yfir sérstökum áhyggjum vegna þessa,“ segir í bréfi húsfélagsformannsins sem vísar í ákvæði skipulagslaga um bótaskyldu vegna lokunar á útsýni og fleira sem skerða muni verðmæti íbúðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×