Innlent

Setja 332 milljónir króna í fyrsta áfanga endurbóta á sundlauginni á Króknum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Nýjar rennibrautir verða ekki settar upp í þessum áfanga.
Nýjar rennibrautir verða ekki settar upp í þessum áfanga. Mynd/Úti Inni Arkitektar
Viðamiklar endurbætur eru hafnar á Sundlaug Sauðár­króks. Endurgera á núverandi laugarhús að utan og innan og breyta skipulagi innanhúss.

„Við framkvæmd sem þessa er óhjákvæmilegt að starfsemi sundlaugarinnar raskist verulega og mun þurfa að loka sundlauginni á hluta verktímans en reynt verður að halda lokunum í lágmarki,“ segir á vef Skagafjarðar. Áætlað sé að fyrsta lokun verði nú á mánudag og að lokað verði í tvær vikur.

„Reynt verður að tilkynna um frekari lokanir með góðum fyrirvara svo gestir laugarinnar geti gert ráðstafanir með breytta tilhögun,“ segir í fréttinni þar sem minnt er á sundlaugar í Varmahlíð og á Hofsósi.

Áætlað er að verkið kosti alls 332 milljónir króna og að því verði lokið 15. ágúst 2019. Um er að ræða fyrsta áfanga af tveimur. „Hönnun á viðbyggingu sem innifelur setlaug og rennibrautir er ekki fullmótuð.“

Í öðrum verkáfanga verður tekinn fyrir vesturhluti hússins, það er núverandi kvenna- og karlaklefar.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×