Innlent

Dráttarbáturinn Magni í slipp

Höskuldur Kári Schram skrifar
Dráttarbáturinn Magni, fyrsta stálskipið sem var smíðað hér á landi, verður tekinn í slipp á næstu mánuðum. Báturinn hefur á síðustu árum legið undir skemmdum í Reykjavíkurhöfn en nú vonast menn til þess að hægt verði að bjarga honum frá eyðileggingu.

Báturinn hefur legið við bryggju í Reykjavíkurhöfn frá árinu 2008 en áhugamenn um sögu skipasmíða á Íslandi vilja nú freista þess að gera bátinn upp og gera hann sjófæran á ný.

Hollvinasamtök Magna hafa undanfarna mánuði leitað eftir styrktaraðilum til að hefja verkið og nú hafa safnast tæpar fjórar milljónir sem duga til að koma bátnum í slipp.

Magni var smíðaður árið 1954 í Stálsmiðjunni í Reykjavík en um er að ræða fyrsta stálskipið sem var smíðað hér á landi.

Böðvar Eggertsson hjá Hollvinasamtökum Magna segir að báturinn verði gerður upp í áföngum en hann vonast til þess að hægt verði að klára verkið á næstu fimm árum.

„Okkar markmið er að koma bátnum í notkun. Þetta er fyrsta stálskipið okkar og okkur ber að varðveita það,“ segir Böðvar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×