Enski boltinn

Nýtti langþráð tækifæri vel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michy Batshuayi er kominn með 10 mörk á tímabilinu.
Michy Batshuayi er kominn með 10 mörk á tímabilinu. vísir/getty
Michy Batshuayi nýtti tækifæri sitt í byrjunarliði Chelsea vel þegar liðið vann 3-0 sigur á Newcastle United í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í gær. Batshuayi skoraði fyrstu tvö mörk Chelsea í leiknum og var afar ógnandi í framlínu Englandsmeistaranna.

Batshuayi hefur fá tækifæri fengið í vetur og Antonio Conte virðist ekki hafa mikla trú á Belganum sem kom frá Marseille fyrir síðasta tímabil. Alls konar framherjar hafa verið orðaðir við Chelsea í þessum mánuði og Conte hefur sagt að takist honum að landa einum slíkum fái Batshuayi að fara á láni frá félaginu.

Batshuayi hefur skorað 10 mörk á tímabilinu. Þrjú þeirra hafa komið í bikarkeppninni en hann skoraði einnig í endurtekna leiknum gegn Norwich City í 3. umferðinni. Belginn hefur alls skorað fimm bikarmörk fyrir Chelsea sem hefur komist í 16-liða úrslit bikarkeppninnar 18 sinnum á síðustu 20 árum. Chelsea komst í úrslitaleikinn í fyrra en tapaði þar fyrir Arsenal.

Stóru málin eftir helgina í enska boltanum

Stærstu úrslitin

West Brom gerði góða ferð á Anfield og sló Liverpool úr leik í 4. umferð ensku bikarkeppninnar. Jay Rodriguez skoraði tvívegis í 2-3 sigri West Brom sem hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum. Útlitið hjá liðinu er því aðeins bjartara en fyrir nokkrum vikum.

Hvað kom á óvart?

D-deildarlið Newport County var átta mínútum frá því að vinna Tottenham á heimavelli sínum, Rodney Parade. Padraig Amond kom Newport í 1-0 á 38. mínútu og þannig var staðan allt þar til Harry Kane jafnaði metin á 82. mínútu og tryggði Tottenham annan leik á Wembley.

Mestu vonbrigðin

West Ham tapaði 2-0 fyrir Wigan Athletic, toppliði C-deildarinnar. Költhetjan Will Grigg skoraði bæði mörk Wigan sem varð bikarmeistari fyrir fimm árum. Arthur Masuaku, leikmaður West Ham, fékk rauða spjaldið fyrir að hrækja á andstæðing. David Moyes, stjóri West Ham, gagnrýndi Masuaku eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×