Enski boltinn

Elneny skýtur á Sánchez: „Nú eru hérna leikmenn sem berjast fyrir merkið“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Einu sinni vinir.
Einu sinni vinir. vísir/getty
Arsenal komst í úrslitaleik enska deildabikarsins á miðvikudagskvöldið þegar að liðið lagði Chelsea, 2-1, í seinni undanúrslitaleik liðanna.

Frammistaðan var ein sú besta hjá Arsenal á tímabilinu en þar fylgdu Skytturnar vel á eftir 4-1 sigri sínum á Crystal Palace um síðustu helgi.

Alexis Sánchez, sem gekk í raðir Manchester United frá Arsenal í byrjun vikunnar, var ekki með í hvorugum leiknum en brotthvarf hans hefur haft jákvæð áhrif á liðið ef marka má Mohamed Elneny, miðjumanns Arsenal.

Elneny skellti sér nefnilega á Twitter eftir sigurinn á móti Chelsea og skaut hressilega á Sánchez. Hann nefndi engan á nafn en það þarf ekki meirapróf til að átta sig á því hvað Egyptinn var að meina.

„Nú eru leikmenn í liðinu sem eru tilbúnir að berjast hverja einustu mínútu fyrir merkið og stuðningsmennina,“ skrifaði Elneny og létm ynd fylgja af leikmönnum Arsenal að fagna.

Arsene Wenger hálfpartinn tók undir orð Elneny á blaðamannafundi eftir leikinn þar sem hann viðurkenndi að staða Sánchez hjá Arsenal var farin að hafa áhrif á liðið.

„Þegar að lið veit ekki hvað er að gerast verður einbeitingin minni og það hefur áhrif á frammistöðuna. Nú vitum við hvað við erum að kljást við þannig að allir gefa aðeins meira af sér,“ sagði Arsene Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×