Enski boltinn

Gylfi fékk viðurkenningu fyrir 200 leiki: Styttist í Eið Smára á tveimur vígstöðvum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson verður brátt búinn að koma að fleiri mörkum en Eiður Smári Guðjohnsen.
Gylfi Þór Sigurðsson verður brátt búinn að koma að fleiri mörkum en Eiður Smári Guðjohnsen. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton og íslenska landsliðsins, fékk viðurkenningu frá ensku úrvalsdeildinni í gær fyrir að vera búinn að spila 200 leiki í deildinni.

Gylfi spilaði 200. leikinn á móti Chelsea á Þorláksmessu en hann endaði með markalausu jafntefli. Hann er nú í heildina búinn að spila 204 leiki í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er frábært að ná þessum áfanga. Ég hef notið hverrar einustu mínútu á Englandi og ég er ánægður með að hafa náð 200 leikjum,“ segir Gylfi í stuttu viðtali á heimasíðu Everton.

Gylfi spilaði fyrst á Englandi seinni hluta tímabilsins 2011/2012 þegar að hann kom á láni til Swansea frá Hoffenheim. Hann fór þá á kostum og skoraði sjö mörk í 18 leikjum. Hann var kjörinn leikmaður mánaðarins í mars 2012 og er enn í dag eini Íslendingurinn sem hefur hlotið þá nafnbót.

Hafnfirðingurinn gekk í raðir Tottenham sumarið 2012 og spilaði þar til 2014 þegar að hann fór aftur til Swansea og spilaði þar í þrjú ár áður en hann gekk í raðir Everton í sumar.

Gylfi er þriðji leikjahæsti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni en það styttist í að hann komist upp fyrir Eið Smára Guðjohnsen sem spilaði 211 leiki fyrir Chelsea, Stoke, Tottenham og Fulham.

Það styttist bæði í að Gylfi verði búinn að spila fleiri leiki en Eiður og einnig að hann verði búinn að koma að fleiri mörkum með beinum hætti en Eiður Smári.

Eiður skoraði 55 mörk og lagði upp önnur 28 á sínum tíma í ensku úrvalsdeildinni og kom því með beinum hætti að 83 mörkum. Gylfi Þór hefur skorað 45 mörk og lagt upp önnur 35 og hefur því komið með beinum hætti að 80 mörkum.

Gylfi á enn þá langt í land með að verða leikjahæsti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni en þar trónir Hermann Hreiðarsson á toppnum með 332 leiki fyrir Crystal Palace, Wimbledon, Ipswich, Charlton og Portsmouth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×