Enski boltinn

Laporte orðinn dýrasti leikmaður í sögu Man. City

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aymeric Laporte kemur frá Athletic.
Aymeric Laporte kemur frá Athletic. vísir/getty
Manchester City gekk í dag frá kaupum á franska miðverðinum Aymeric Laporte frá Atheltic Bilbao en enska félagið borgar 57 milljónir punda fyrir hann eða átta milljarða króna.

Þetta er það mesta sem Man. City hefur greitt fyrir leikmann en fyrra metið stóð í 55 milljónum punda sem félagið borgaði fyrir Kevin De Bruyne frá Wolfsburg fyrir þremur árum síðan.

Laporte er 23 ára gamall og er fæddur í Agen sem er í baskahéraði Frakklands. Því mátti hann spila með Bilbao sem rígheldur í stefnu sína að spila aðeins böskum í sínu liði.

Hann hefur byrjunarliðsmaður hjá Athletic síðan 2013 en hefur þrátt fyrir það aldrei spilað leik fyrir franska landsliðið. Hann spilaði á yngri árum með öllum yngri landsliðum Frakka.

Kaupverðið gerir Laporte að næstdýrasta varnarmanni í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en sá dýrasti er vitaskuld Virgil van Dijk sem Liverpool keypti frá Southampton fyrir jól.

Með kaupunum á Frakkanum unga er Pep Guardiola nú búinn að kaupa varnarmenn fyrir 190 milljónir punda eða 27 milljarða króna. Heildareyðsla Guardiola er nú farin yfir 450 milljónir punda eða því sem nemur ríflega 67 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×