Innlent

Svindlarar segja Gylfa hættan í boltanum og hala inn peningum á Bitcoin

Samúel Karl Ólason skrifar
Falsfréttinni er stillt upp þannig að Gylfi hafi verið í sjónvarpsviðtali um málið við fréttakonu sjónvarpsstöðvar í Los Angeles.
Falsfréttinni er stillt upp þannig að Gylfi hafi verið í sjónvarpsviðtali um málið við fréttakonu sjónvarpsstöðvar í Los Angeles.
Svikarar sem héldu því fram á dögunum að Ólafur Jóhann Ólafsson hefði hannað Bitcoin-kerfi sem breytt hafi lífi fjölmargra Íslendinga hafa nú snúið sér að Gylfa Þór Sigurðssyni, landsliðsmanni í fótbolta. Í sambærilegri falsfrétt sem er nú á dreifingu á Facebook segir að Gylfi hafi hætt í boltanum og hali nú inn peningum með „Bitcoin Code“ kerfinu sem hann á sjálfur að hafa þróað.

Í keyptri auglýsingu á Facebook segir að forritið sem Gylfi hafi búið til muni tryggja bjarta fjárhagslega framtíð fyrir alla Íslendinga.

Færsla sem fjallar um hina meintu björtu framtíð Íslendinga.
Falsfréttinni er stillt upp þannig að Gylfi hafi verið í sjónvarpsviðtali um málið við fréttakonu sjónvarpsstöðvar í Los Angeles. Einhverra hluta vegna á Gylfi þó að vera staddur á strönd í Pretoríu í Suður-Afríku.

Sjá einnig: Ólafur sagður Bitcoin-frumkvöðull í falsfrétt: „Myndi ekki kaupa Bitcoin frekar en tréspíra af vafasömum sprúttsala“



Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur varað við svikamyllum sem þessari. Þær auglýsa starfsemi sína á samfélagsmiðlum og í gegnum falsfréttir sem líti sannfærandi út. Lögreglan segir að erfitt geti reynst að endurheimta peninga, láti einhver ginnast af svikunum.

Í tilkynningu lögreglu segir að svindl fyrirtækjanna felist fyrst og fremst í því að sannfæra einstaklinga um að leggja inn fé sem nota á í „viðskiptaplan og tölvustýrða áhættu.“ Í flestum tilvikum hverfa peningarnir þó fljótt og örugglega í viðskiptum sem aldrei áttu sér stað. Svo hringi téðir miðlarar aftur og bjóði upp á frekari gróðatækifæri gegn því að fólk leggi meira fé inn á reikninga fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×