Enski boltinn

Ég elska að vera hjá Reading

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson hefur verið duglegur að skora upp á síðkastið. Hér skorar hann eitt þriggja marka sinna í bikarleik gegn Stevenage.
Jón Daði Böðvarsson hefur verið duglegur að skora upp á síðkastið. Hér skorar hann eitt þriggja marka sinna í bikarleik gegn Stevenage. vísir/getty
Janúar var gjöfull hjá Jóni Daða Böðvarssyni, leikmanni enska B-deildarliðsins Reading. Selfyssingurinn skoraði fimm mörk í mánuðinum, öll þrjú mörk Reading í 3-0 sigri á Stevenage í endurteknum leik í 3. umferð ensku bikarkeppninnar og svo tvö mörk í 1-3 sigri á Burton Albion í B-deildinni á þriðjudaginn.

„Ég er himinlifandi með tvö mörk og mikilvægan sigur,“ sagði Jón Daði í samtali við Fréttablaðið í gær.

Reading átti gott tímabil í fyrra og var hársbreidd frá því að komast upp í ensku úrvalsdeildina. Í ár hefur ekki gengið jafn vel og Reading situr í 18. sæti B-deildarinnar.

„Væntingarnar voru að komast upp, sérstaklega eftir góðan árangur í fyrra. En því miður höfum við ekki staðið undir væntingum. Þetta er eitt af þessum tímabilum þar sem hlutirnir ganga ekki upp,“ sagði Jón Daði en með sigrinum á þriðjudaginn komst Reading sex stigum frá fallsæti. Selfyssingurinn segir að núna snúist dæmið um að forðast fallbaráttuna og klára tímabilið með sæmd.

„Það er það langt liðið á tímabilið að það er ljóst að þetta verður slagur í neðri helmingnum. Við þurfum að ná í sem flest stig,“ sagði Jón Daði sem verður væntanlega í eldlínunni þegar Reading fær Millwall í heimsókn á morgun.

Þrátt fyrir brösugt gengi Reading í vetur gefur Jón Daði félaginu og borginni hæstu einkunn.

„Ég elska að vera hérna. Þetta er æðisleg borg og vel staðsett, nálægt London. Ég bý í fínasta hverfi með kærustunni minni. Okkur líður mjög vel hérna,“ sagði Jón Daði sem er langt því frá fyrsti Íslendingurinn sem spilar með Reading. Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson léku lengi með liðinu við góðan orðstír og Gylfi Þór Sigurðsson hóf feril sinn sem atvinnumaður hjá Reading. Þá lék Eyjamaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson nokkra leiki með Reading. Jón Daði segir að Íslendingar séu í miklum metum hjá félaginu.

„Það eru enn starfsmenn hjá félaginu sem voru þegar þeir voru hérna. Þeir eru duglegir að tala um þá og eru stoltir af þeim. Maður finnur fyrir aukinni velvild því maður er frá Íslandi,“ sagði Jón Daði.

Í herbúðum Reading eru einnig bræður úr Mosfellsbænum, Axel Óskar og Jökull Andréssynir. Hinn tvítugi Axel hefur verið að banka á dyrnar í aðalliði Reading en leikur nú sem lánsmaður með utandeildarliðinu Torquay United. Jökull er 16 ára markvörður sem þykir mikið efni.

„Þetta eru mjög fínir strákar og efnilegir,“ sagði Jón Daði um landa sína hjá Reading.

Hann segir að hinn líkamlega krefjandi leikstíll ensku B-deildarinnar henti sér vel.

„Þetta er virkilega beinskeyttur fótbolti, mikil hlaup og ekki tomma gefin eftir. Þetta er erfið deild að því leyti að það eru svakalega margir leikir. Það tók mig heilt tímabil með Wolves að venjast því. Mér finnst fótboltinn hérna skemmtilegur og gaman að vera í þessu enska umhverfi. Þetta er svo ástríðufullt,“ sagði Jón Daði.

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Úlfarnir, hinir gömlu félagar Jóns Daða, leiki í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Wolves er með 11 stiga forskot á toppi B-deildarinnar. Jón Daði segist lítið spá í það.

„Mér kemur það eiginlega ekkert við. Ég sá þetta ekkert gerast. Það voru svo svakalegar breytingar hjá þeim fyrir tímabilið. Þeir voru duglegir að styrkja sig. Mér er alveg sama hvað þeir eru að gera,“ sagði Jón Daði.

Það styttist óðum í sjálft heimsmeistaramótið þar sem Ísland verður í fyrsta skipti meðal þátttökuþjóða. Þótt tilhlökkunin sé mikil segist Jón Daði aðallega einbeita sér að Reading.

„Ef ég á að vera hreinskilinn hugsa ég lítið út í það. Maður er fyrst og fremst að hugsa um að gera vel hjá Reading og síðan kemur að HM. Auðvitað er mikil spenna í manni en maður er bara í núinu,“ sagði Jón Daði að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×