Enski boltinn

Hörkutól skoska fótboltans hættulegur öðrum leikmönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scott Brown.
Scott Brown. Vísir/Getty
Fyrirliði Celtic er langt frá því að vera vinsælasti leikmaður skosku deildarinnar í fótbolta enda leikmaður sem lætur andstæðinga sína finna vel fyrir sér inn á vellinum.

Síðasta fórnarlamb Scott Brown var Harry Cochrane, miðjumaður Hearts-liðsins. Táningurinn spilar ekki á næstunni þökk sé hörkutóli skoska fótboltans.

Cochrane meiddist á viðbeini í leik Celtic og Hearts eftir eina tæklinguna frá Brown og knattspyrnustjóri Hearts var ekki hrifinn í viðtölum eftir leik.

„Ég held að það þurfi allir leikmenn að fá meiri vernd fyrir Scott Brown,“ sagði  Craig Levein, knattspyrnustjóri Heart í viðtali við BBC.

Scott Brown hefur fengið níu gul spjöld á tímabilinu til þessa en síðasta rauða spjaldið hans var í april. Hann hefur líka aðeins fengið eitt rautt spjald á þremur tímabilum og það þykir mörgum andstæðingum hans ótrúleg tölfræði.

Hinn sextán ára gamli Harry Cochrane missir af leik Hearts um helgina en hann fór meiddur af velli eftir aðeins 38 mínútur.

„Ég er búinn að horfa aftur á þetta og tel að  Scott hafi ætlað að tryggja það að Harry færi ekki illa með hann eins og þegar þeir mættust síðast,“ sagði Levein.

Cochrane skoraði í 4-0 sigri Hearts á Celtic fyrir áramót en verður ekki með í næstu leikjum Hearts þökk sé ruddaskap Scott Brown.

Fljúgandi tækling frá Scott Brown.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×