Innlent

Eyja kvikmyndafeðga boðin á 150 milljónir

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Feðgarnir og kvikmyndaframleiðendurnir Sigurjón Sighvatsson og Þórir Snær Sigurjónsson fyrir tæpum áratug.
Feðgarnir og kvikmyndaframleiðendurnir Sigurjón Sighvatsson og Þórir Snær Sigurjónsson fyrir tæpum áratug. Vísir/anton brink
Eyjan Arney á Breiðafirði er nú boðin til sölu á 150 milljónir króna.



Arney er í sölulýsingu sögð vera stór eyja skammt undan Stykkishólmi. Henni fylgi 10 til 11 hólmar og eyjar og hálf Skjaldar­ey á móti Bíldsey. Í eyjunni sé íbúðarhús og útihús sem þarfnist aðhlynningar. Þar sé æðarvarp og lundatekja og góð grásleppumið. Vatnsból í Arnarey sé gott. „Mikil náttúrufegurð. Einstök náttúruperla,“ segir í auglýsingunni.

Eigandi Arneyjar er félagið SI fasteignir en skráður eigandi þess er Þórir Snær Sigurjónsson, kvikmyndaframleiðandi hjá Zik Zak. Þórir er meðal annars einn stofnenda bakarísins Brauð&Co á Frakkastíg. Hann er sonur Sigurjóns Sighvatssonar sem einnig er kvikmyndaframleiðandi og keypti einmitt Arney um aldamótin síðustu.

Fleiri eyjar á svipuðum slóðum eru einnig til sölu. Má þar nefna Snóksey sem sögð er „falleg gróin eyja með fögru útsýni frá háum hólum yfir söguslóðir elstu Íslendingasagna, með frábæru bátalægi, dúntekju og óspilltri náttúru“. Ásett verð á Snóksey er 32 milljónir króna.

Þá fæst 60 prósenta eignarhluti í Kiðey á 40 milljónir króna. „Að sögn eiganda er eyjan talin vera um 40 hektarar og var búið þar fyrr á öldum,“ segir um Kiðey.

Einnig má nefna að tilboða er óskað í Hrútshólma. „Eyjan, sem er ekki stór, er hluti af Stóru-Tungueyjum sem liggja suður af Dagverðarnesi á Fellsströnd,“ segir um Hrútshólma sem samkvæmt ónákvæmri mælingu er talinn vera 2,2 hektarar. „Eign sem gefur möguleika á að njóta fjölbreytts náttúrufars Breiðafjarðar. Fjarlægð frá Stykkishólmi talin vera um 22 kílómetrar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×