Erlent

Fyrsti skafmiðinn eyddi öllum fjárhagsáhyggjum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Charlie Lagarde var að vonum hæstánægð þegar hún fékk fyrstu ávísunina í hendurnar.
Charlie Lagarde var að vonum hæstánægð þegar hún fékk fyrstu ávísunina í hendurnar. LOTO QUEBEC
Kanadísk unglingsstúlka datt svo sannarlega í lukkupottinn á dögunum. Skafmiði sem hún keypti til að fagna 18 ára afmæli sínu skilaði henni aðalvinningnum og ætla má að hún þurfi ekki að hafa áhyggjur af peningamálum framar.

Charlie Lagarde mátti velja milli tveggja vinninga. Annars vegar bauðst henni að fá eina greiðslu upp á 1 milljón kanadadali, sem eru um 75 milljónir íslenskra króna, eða hljóta 1000 dala greiðslu vikulega það sem hún á eftir ólifað. Það gera um 75 þúsund krónur á viku eða 300 þúsund krónur í meðalmánuði.

Eftir að hafa ráðfært sig við fjármálaráðgjafa ákvað hún að taka síðarnefnda vinninginn því hann var skattfrjáls. Mun Lagarde því fá 1000 kanadadollara í vasann í hverri einustu viku meðan hún tórir.

Lagarde segist ætla að nota vinninginn til að fjármagna menntunina sína, en hana dreymir um að verða ljósmyndari fyrir National Geographic.

Þetta var fyrsti skafmiðinn sem Lagarde hefur keypt á ævi sinni. Ekki fylgir sögunni hvort hún muni láta reyna á heppni sína aftur á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×