Erlent

Lögreglumenn sem drápu óvopnaðan blökkumann sleppa við ákæru

Kjartan Kjartansson skrifar
Til mótmæla kom í Baton Rouge eftir dauða Sterling sumarið 2016.
Til mótmæla kom í Baton Rouge eftir dauða Sterling sumarið 2016. Vísir/AFP
Saksóknarar í Lúisíana í Bandaríkjunum hafa ákveðið að ákæra ekki tvo lögreglumenn sem áttu þátt í að Alton Sterling var skotinn til bana árið 2016. Mál Sterling hratt af stað hörðum mótmælum en það var eitt nokkurra þar sem lögreglumenn skutu óvopnaða blökkumenn til bana.

Sterling var drepinn í júlí árið 2016. Tveir lögreglumenn sem sinntu útkalli um manns sem væri að ógna fólki með byssu stöðvuðu hann þar sem hann var að selja geisladiska fyrir utan kjörbúð í bænum Baton Rouge, héldu honum niðri og skutu hann til bana. Hann var 37 ára gamall.

Dauði Sterling átti sér stað þegar mikið reiðualda gekk um Bandaríkin vegna fjölda atvika þar sem lögreglumenn, í mörgum tilfellum hvítir, skutu óvopnaða blökkumenn til bana. Mikil mótmæli brutust út vegna máls Sterling og fleiri fórnarlamba lögreglumanna.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið ákvað að gefa ekki út alríkisákæru gegn lögreglumönnunum í fyrra á þeim forsendum að ekki væru nægilegar sannanir fyrir því að þeir hefðu brotið gegn borgararéttindum Sterling. Strangar kröfur eru fyrir slíkum ákærum í bandarískum lögum og verður að sýna fram á ásetning af hálfu lögreglumanna.

Í kjölfarið hófu saksóknarar Lúisíanaríkis rannsókn. Þeir hafa nú komist að því að ekki sé ástæða til að ákæra lögreglumennina tvo, að því er segir í frétt Washington Post.

Lögmaður fjölskyldu Sterling segir að saksóknarar hafi þó getað veitt frekari upplýsingar um hvernig dauða hans bar að. Þannig hafi annar lögreglumannanna beint byssu sinni að höfði Sterling og sagt við hann: „Ég drep þig, tík“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×