Erlent

Báru eld að íbúð látinnar konu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ráðist var á Mireille Knoll á heimili hennar.
Ráðist var á Mireille Knoll á heimili hennar. Vísir/AFP
Franskir saksóknarar telja að morðingi 85 ára gamallar konur af gyðingaættum, sem fannst illa leikin í rústum íbúðar sinnar, hafi látið andúð sína á gyðingum ráða för. Því sé ekki aðeins um morð að ræða heldur einnig hatursglæp.

Konan, Mireille Knoll, hafði verið stungin með eggvopni nokkrum sinnum áður en eldur var borinn að íbúð hennar.

Í frétt breska ríkisútvarpsins kemur fram að Knoll hafi verið ein þeirra gyðinga sem komst hjá því að lenda í klóm Vel d'Hiv-aðgerðarinnar, þegar um 13 þúsund gyðingum í París var smalað saman og þeir svo sendir í útrýmingarbúðir nasista.

Tveir menn, 22 ára og 29 ára gamlir, hafa verið handteknir í tengslum við málið. Franska lögreglan telur sig nokkuð vissa í sinni sök og bendir á að annar þeirra hefur áður verið dæmdur fyrir að misnota 12 ára stúlku sem hafði gist í íbúð Knoll.

Hin látna hafði einnig gert lögreglunni viðvart um að nágrannar hefðu hótað að kveikja í íbúð hennar.

Haft er eftir syni Knoll að hann sé í áfalli vegna málsins. Hann geti hreinlega ekki skilið hvernig einhverjum detti í hug að myrða konu sem hefur ekkert á milli handanna og býr þar að auki í félagsíbúð.

Samtök franskra gyðinga fordæma morðið og lýsa yfir áhyggjum af fjölgun hatursglæpa í garð gyðinga á síðustu misserum.

Hér að neðan má sjá færslu franska þingmanns Meyer Habib sem minntist Knoll á Facebook-síðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×