Erlent

Pútín skrifar brunann á „glæpsamlega vanrækslu“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vladimir Pútín virti fyrir sér leikföngin sem búið er að leggja á bílastæði verslunarmiðstöðvarinnar til minningar um þá sem fórust. Flestir þeirra voru börn.
Vladimir Pútín virti fyrir sér leikföngin sem búið er að leggja á bílastæði verslunarmiðstöðvarinnar til minningar um þá sem fórust. Flestir þeirra voru börn. Vísir/Getty
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að eldurinn sem varð 64 að bana í verslunarmiðstöð í Síberíu sé afsprengi „glæpsamlegrar vanrækslu“

Forsetinn heimsótti rústir verslunarmiðstöðvarinnar nú í morgun og var tíðrætt um hroðvirkni og viðvaningshátt þegar talið barst að öryggismálum verslunarmiðstöðvarinnar.

Rannsakendur telja að búið hafi verið að slökkva á brunabjöllum og byrgja fyrir neyðarútganga þegar eldurinn braust út á sunnudag. Flestir hinna látnu voru börn sem höfðu verið að skemmta sér á leiksvæði verslunarmiðstöðvarinnar. Á myndbandsupptökum sést hvernig eldurinn breiddist út á ógnarhraða og svartur reykjarmökkur sá til þess að skyggnið innandyra var ekkert.

Sjá einnig: Neyðarútgangar voru læstir og slökkt var á brunabjöllum

Fréttastofan Interfax segir um 300 manns hafa mótmælt við höfuðstöðvar héraðsstjórnarinnar og krafist afsagnar allra sem eiga í hlut.

Þetta er ekki „stríðsverknaður eða metan-sprenging í námu,“ sagði Pútín við fréttamenn er hann stóð í rústum verslunarmiðstöðvarinnar. „Fólk, börn koma hingað til að slaka á. Við tölum um lýðfræði og allt þetta fólk lést út af hverju? Út af glæpsamlegri vanrækslu, hroðvirkni,“ sagði Pútín.

Eldurinn átti upptök sín á efri hæð verslunarmiðstöðvarinnar, sem sögð var full af fólki eins og alla jafna á sunnudögum. Á upptökum úr öryggismyndavélum sést hvernig fólk fleygði sér út um glugga til að verða ekki eldinum að bráð.

Rannsóknarnefnd sem kannar málið telur að öryggissérfræðingur verslunarmiðstöðvarinnar hafi slökkt á brunaviðvörunarkerfinu eftir að hafa fengið veður af eldinum. Rannsókn nefndarinnar lýtur því ekki síst að því að draga menn til ábyrgðar og hafa fimm verið handteknir vegna gruns um aðild að málinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×