Erlent

Fundu múmíu í „tómri“ kistu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rannsókn á innihaldi kistunnar lauk í síðustu viku.
Rannsókn á innihaldi kistunnar lauk í síðustu viku. Háskólinn í Sydney
Vísindamenn í Ástralíu hafa fundið leifar múmíu ofan í 2500 ára gamalli kistu sem áður hafði verið talin tóm. Steinkistan hafði legið óhreyfð í háskólasafninu í Sydney í rúmlega 150 ár. Þegar vísindamenn opnuðu kistuna í fyrra brá þeim í brún - ofan í henni voru mannabein.

Vísindamennirnir telja að líkamsleifarnar hafi verið skemmdar, líklega af grafræningjum, einhvern tímann í rúmlega 2000 ára sögu kistunnar. Fornleifafræðingurinn dr. James Fraser segir í samtali við breska ríkisútvarpið að uppgötvunin hafi verið mögnuð upplifun.

„Það var bara svo ótrúlega furðulegt sem við sáum - eitt af þessum augnablikum þar sem þú getur ekki annað gert en að draga andann og njóta andartaksins,“ segir Fraser um uppgötvunina, sem var opinberuð nú á dögunum.

„Ég hef aldrei grafið upp egypskt grafhýsi en þetta kemst nokkuð nálægt því.“

Steinkistan er ein fjögurra sem fluttar voru til Ástralíu á árunum í kringum 1860. Í flokkunarkerfi safnsins var hún sögð vera tóm og að sögn Fraser var hún ekki tilkomumikil að sjá. Hinar kisturnar þrjár fengu þannig allar miklu meiri athygli vísindamanna, enda heillegar og innihéldu allar vel varðveittar múmíur.

Fræðimenn munu nú reyna að bera kennsl á líkamsleifarnar sem eru sem fyrr segir illa farnar. Á kistunni segir að hún hafi verið smíðuð fyrir konu að nafni Mer-Neith-it-es, sem annað hvort var prestur eða dýrkandi. Fræðimennirnir telja að grafræningjar hafi einhvern tímann farið ofan í kistuna, hvenær sé hins vegar erfitt að segja. Aðeins um 10 prósent séu eftir af líkinu sem lagt var ofan í steinkistuna um 600 árum fyrir Krist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×