Erlent

Íhaldssöm Clueless-stjarna hættir við framboð til Bandaríkjaþings

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Stacey Dash er þekkt fyrir leik sinn í myndinni Clueless.
Stacey Dash er þekkt fyrir leik sinn í myndinni Clueless. Vísir/Getty
Stacey Dash, sem þekktust er fyrir að hafa leikið bestu vinkonu Aliciu Silverstone í unglingamyndinni vinsælu Clueless, er hætt við að bjóða sig fram til Bandaríkjaþings.

Í fréttatilkynningu sem Dash sendi fréttastofu CNN kemur fram að hún hafi, eftir mikla umhugsun, tekið þá ákvörðun að hætta við framboðið vegna þess að hún telji að það myndi koma niður á fjölskyldunni sinni. Velferð fjölskyldunnar væri í húfi því það væri ákveðinn „biturleiki“ sem einkenni stjórnmálaástandið á vorum dögum.

„Ég myndi aldrei brjóta í bága við mín persónulegu og trúarlegu gildi sem ég hef í miklum hávegum; Guð og fjölskyldan mín eru í fyrsta sæti,“ segir Dash.

Snemma í þessum mánuði tilkynnti Dash að hún hygðist bjóða sig fram í Kaliforníu og sóttist auk þess eftir stuðningi Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna.

Það þótti frá upphafi mjög ólíklegt að Dash hlyti útnefningu repúblikana en hún hafði í hyggju að bjóða sig fram í hverfi sem hefur verið í gegnum tíðina vígi frjálslyndra. Kjósendur hverfisins kusu flestir Hillary Clinton í forsetakosningunum 2016 auk þess sem sitjandi þingmaður hverfisins er demókrati.

Í viðtali við Guardian sagði Dash frá því að eftir að hafa greint frá stjórnmálaskoðunum sínum hafi henni verið útskúfað frá Hollywood.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×