Erlent

Mátti segja að heimabærinn væri illa lyktandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Josh Harms lagði bæjaryfirvöld í smábænum Sibley.
Josh Harms lagði bæjaryfirvöld í smábænum Sibley. Vísir/Getty
Forráðamönnum smábæjarins Sibley í Iowa-ríki Bandaríkjanna hefur verið meinað að lögsækja einn af íbúum bæjarins sem hélt því fram á netinu að bærinn væri afar illa lyktandi. BBC greinir frá.

Bæjaryfirvöld höfðu hótað að lögsækja Josh Harms, sem rekur vefsíðuna „Ættir þú að flytja til Sibley í Iowa?“. Þar varaði hann við því að bærinn lyktaði eins og þránaður hundamatur og að yfir bænum lægi „hræðileg blóð og bjórlykt“. Lyktin sem um ræðir kemur frá verksmiðju sem vinnur vörur úr svínablóði.

Höfðu bæjaryfirvöld samband við Harms í desember á síðasta ári og gáfu honum tíu daga frest til þess að loka vefsíðunni, ella yrði hann dreginn fyrir dómstóla.

Harms sneri hins vegar vörn í sókn og með hjálp bandarísku mannréttindasamtakanna American Civil Liberties Union kærði hann bæjaryfirvöld í Sibley á grundvelli þess að með því að hóta að lögsækja hann hefðu bæjaryfirvöld brotið stjórnarskrárvarinn rétt hans til tjáningar.

Í vikunni komst niðurstaða í málið og dæmdi dómari Harms í vil. Var bæjaryfirvöldum meinað að hóta Harms lögsókn eða lögsækja hann vegna málsins. Harms er því frjálst að tjá sig um ólyktina auk þess em að bærinn þarf að biðja hann formlega afsökunar, greiða málskostnað í málinu auk 6.500 dollara í skaðabætur, sem eru um 600 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×