Erlent

Rússar prufukeyrðu „Satan 2“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Satan 2 var skotið á loft í dag.
Satan 2 var skotið á loft í dag. Vísir/Skjáskot
Nýrri langdrægri eldflaug Rússa, sem kölluð er „Satan 2“, var skotið á loft í dag, ef marka má myndband sem rússneska varnarmálaráðuneytið birti í dag á Twitter.

Í myndbandinu sést hvernig eldflauginni er skotið á loft frá Plesetsk-skotpallinum í Arkhangelsk-héraði í norðurhluta Rússlands. Hún fer af stað með miklum látum og þýtur svo úr augsýn.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, minntist á flaugina í einu ávarpi sínu snemma í mánuðinum. „Ekkert öryggiskerfi mun standast kraft hennar,“ sagði Pútín, að því er fram kemur í frétt hinnar bandarísku FOX-fréttastofu.

Þróun á eldflauginni, sem hefur iðulega verið kölluð Satan 2 innan Atlantshafsbandalagsins, hefur staðið yfir í nokkur ár. Vonast Rússar til þess að flaugin leysi forvera sinn, langdrægu eldflaugina Voyevoda, af hólmi. Sú flaug gekk undir nafninu Satan.

Eldflaugatilraunin hófst aðeins nokkrum klukkutímum eftir að Rússar tilkynntu um að þeir hygðust vísa 60 bandarískum erindrekum úr landi. Um er að ræða svar Rússa við ákvörðun Bandaríkjamanna og annarra þjóða sem hafa rekið rússneska sendiráðsstarfsmenn úr landi vegna Skripal-málsins svokallaða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×