Erlent

Áfall og sorg í Kanada vegna áreksturs vörubíls og rútu með ungmennum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Vísir/AFP
„Þjóðin öll er í áfalli og sorg,“ sagði Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada í tilkynningu um umferðarslysið í Saskatchewan-fylki á föstudag. 15 létust í árekstri flutningabíls og rútu, flestir þeirra voru ungmenni. Allir 14 farþegarnir sem lifðu af eru slasaðir, þar af tveir lífshættulega.

„Þetta er martröð allra foreldra. Enginn ætti að þurfa að horfa á eftir barninu sínu fara að spila íþróttina sem það elskar, og koma svo aldrei til baka,“ segir meðal annars í tilkynningunni. Forsætisráðherrann þakkaði meðal annars viðbragðsaðilum og heilbrigðisstarfsfólki fyrir hugrekki og fagmennsku í ótrúlega erfiðum aðstæðum.

„Hjörtu okkar eru brotin.“

Vörubíllinn og rútan lentu í árekstri á hraðbraut en í rútunni klukkan fimm að staðartíma voru 28 farþegar auk bílstjóra. Farþegarnir voru ungmennalið í íshokkí frá liðinu Humboldt Broncos, en leikmenn liðsins eru á aldrinum 16 til 21 árs. Þeir voru að fara að keppa í Nipawin og lést aðstoðarþjálfari liðsins einnig í árekstrinum.

Íshokkíliðið kemur frá 6.000 íbúa borg og er samfélagið í mikilli sorg. Mynd af slösuðum liðsfélögum að styðja hvern annan á sjúkrahúsi hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum.

Bílstjóri flutningabílsins slapp ómeiddur og var handtekinn á staðnum en sleppt skömmu síðar samkvæmt frétt BBC.  Orsök umferðarslyssins liggur ekki fyrir en lögregla rannsakar nú málið.

Nokkur íshokkílið heiðruðu Humboldt Broncos með táknrænum hætti á leikjum sínum um helgina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×