Erlent

Fleiri Palestínumenn liggja í valnum eftir átök á Gasa

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur kveiktu meðal annars í dekkjum til að byrgja sýn ísraelskra leyniskyttna.
Mótmælendur kveiktu meðal annars í dekkjum til að byrgja sýn ísraelskra leyniskyttna. Vísir/AFP
Ísraelskir hermenn skutu að minnsta kosti tvo Palestínumenn til bana í mótmælum við mörk Gasasvæðisins og ísraelsks yfirráðasvæðis í dag. Fullyrt er að 150 Palestínumenn hafi særst til viðbótar. Ísraelsher segir að skotið hafi verið á fólkið þegar það reyndi að komast í gegnum girðingu.

Mótmælendurnir kröfðust þess að palestínskir flóttamenn fengju að snúa til heimahaganna sem Ísraelar tóku undir sig við stofnun ríkis síns árið 1948. Ísraelsk stjórnvöld staðhæfa hins vegar að Hamassamtökin standi að mótmælunum til þes að ráðast á Ísraelsríki.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að mótmælendur hafi kastað steinum og eldsprengjum að hermönnum sem stóðu Ísraelsmegin landamæranna. Þá hafi þeir kveikt í dekkjum til að byrgja ísraelskum leyniskyttum sýn. Hópurinn hafi gert margar tilraunir til að brjóta sér leið í gegnum landamæragirðingu.

Sextán Palestínumenn féllu fyrir ísraelskum byssukúlum og hundruð særðust við hliðstæð mótmæli fyrir viku. Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa krafist óháðrar rannsóknar á átökunum.


Tengdar fréttir

Þjóðarsorg í Palestínu

Þá hefur aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kallað eftir óháðri rannsókn vegna dauðsfallanna í blóðugum átökum við landamærin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×