Erlent

Fjandmanni dýraverndar falið að hafa umsjón með dýralífi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Yellowstone-þjóðgarðinum í Bandaríkjunum. Combs hefur verið andsnúin nær öllum tillögum um að lýsa dýrategundir í útrýmingarhættu.
Frá Yellowstone-þjóðgarðinum í Bandaríkjunum. Combs hefur verið andsnúin nær öllum tillögum um að lýsa dýrategundir í útrýmingarhættu. Vísir/AFP
Innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur valið fyrrverandi embættismann frá Texas sem hefur verið einarðlega andsnúinn lögum um dýr í útrýmingarhættu til að stýra málefnum fiskistofna, dýralífs og þjóðgarða.

Susan Combs er stórbóndi og fyrrverandi fjármálastjóri Texas-ríkis. Washington Post segir að hún hafi sterk tengsl við olíuiðnaðinn. Sem embættismaður háði hún margar hildir við Fisk- og dýralífsstofnun Bandaríkjanna vegna beitingu laga um dýr í útrýmingarhættu. Hún vildi meðal annars fella niður vernd söngfuglategundar sem var talin í útrýmingarhættu og fullyrti að það skaðaði viðbúnað hersins árið 2015.

Hún líkti meðal annars alríkislögum um vernd dýrategunda í útrýmingarhættu við sovésk flugskeyti fyrir þingnefnd árið 2013. Þá er hún sögð hafa verið andsnúin nær öllum tillögum alríkisstjórnarinnar um að setja dýr á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu og dregið í efa vísindalegar niðurstöður og mat á efnahagslegum áhrifum.

Upphaflega var Combs tilnefnd sem aðstoðarráðherra stefnumótunar, stjórnunar og fjármálaáætlunar í júlí. Dregist hafði að staðfesta tilnefningu hennar í Bandaríkjaþingi vegna andstöðu bæði repúblikana og demókrata af ýmsum ástæðum.

Washington Post segir að svo virðist sem að Zinke hafi skipað Combs í stöðu starfandi aðstoðarráðherra yfir dýralífsmálum í hefndarskyni. Hann hefur unnið með þingmönnum repúblikana að því að draga tennurnar úr lögum um dýr í útrýmingarhættu.

Combs mun nú hafa áhrif á stefnu bandarískra stjórnvalda um stjórn dýralífsmála.Vísir/AFP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×