Erlent

Vilja koma í veg fyrir aftöku „Boys Don´t Cry morðingjans“

Samúel Karl Ólason skrifar
Peter Sarsgaard, Hilary Swank og Brendan Sexton í hlutverkum Lotter, Teena og Nissen.
Peter Sarsgaard, Hilary Swank og Brendan Sexton í hlutverkum Lotter, Teena og Nissen. Vísir/Getty
Lögmenn morðingjans John Lotter segja að ekki megi taka hann af lífi vegna þess hve greindarskertur hann sé. Morð hans urðu kveikjan að myndinni Boys Don‘t Cry sem gefin var út árið 1999 með Hillary Swank í aðalhlutverki. Lotter situr í fangelsi fyrir þrjú morð sem hann framdi árið 1993 og hefur hann beðið aftöku í 22 ár.

Hann var dæmdur til dauða í Nebraska fyrir að hafa myrt Brandon Teena, 21 árs transmann, og vitnin Lisu Lambert og Philip DeVine. Hann er 46 ára gamall.

Í síðustu viku lögðu lögmenn hans fram kröfu um að fella ætti aftöku hans niður eftir að hann mældist með 67 í greindarvísitölu í fyrra. Samkvæmt frétt AP-fréttaveitunnar samsvarar það greindarvísitölu átta ára gamals barns.

Lög Nebraska segja til um greindarvísitala undir 70 sé hægt að leggja fyrir dóm til marks um greindarskerðingu og þá úrskurðaði Hæstiréttur Bandaríkjanna árið 2002 að ekki mætti taka fanga með greindarskerðingu af lífi.

Samþykki dómari málflutning lögmanna Lotter munu saksóknarar fá eigin sérfræðing til að greina Lotter.

Lotter og Marvin Thomas Nissen nauðguðu Teena eftir að þeir komust að því að hann væri transmaður og myrtu hann. Sömuleiðis myrtu þeir Lampert og DeVine sem urðu vitni að morði Teena. Nissen situr í lífstíðarfangelsi vegna morðanna. Lotter hefur ávalt haldið fram sakleysi sínu.

Kvikmyndin Boys Don‘t Cry fjallaði um morðin og vann Swank óskarsverðlaunin fyrir að leika Teena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×