Erlent

Neyðarástand vegna meiriháttar olíuleka við Indónesíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Þykkan reyk leggur frá olíubrákinni eftir að eldur kviknaði um helgina.
Þykkan reyk leggur frá olíubrákinni eftir að eldur kviknaði um helgina. Vísir/AFP
Stjórnvöld á Indónesíu hafa lýst yfir neyðarástandi vegna olíuleka í hafinu undan ströndum Borneó. Fjórir sjómenn fórust um páskahelgina þegar kviknaði í olíunni. Uppruni lekans liggur enn ekki fyrir en hundruð manna hafa tilkynnt um öndunarerfiðleika, ógleði og uppsala vegna mengunarinnar.

Olíubrákin þekur nú um tólf ferkílómetra svæði í hafinu utan við þessa stærstu eyju Asíu. Lekans varð fyrst vart á laugardag en hann hefur síðan breiðst út. Yfirvöld hafa áhyggjur af vaxandi eldhættu af völdum hans, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Stór olíuhreinsistöð á vegum ríkisolíufyrirtækisins Petramina er í bænum Balikpapan þar sem lekans varð vart. Talsmenn fyrirtækisins segja að neðansjávarleiðsla þess hafi ekki brostið og neita ábyrgð á lekanum.

Stjórnandi hreinsistöðvarinnar segir að um eldsneytisolíu sé að ræða, ekki hráolíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×