Erlent

Fann dóttur sína eftir 24 ára leit

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Wang Mingqing hafði leitað dóttur sinnar á hverjum degi frá því að hún hvarf úr ávaxtasölu hans fyrir 24 árum síðan.
Wang Mingqing hafði leitað dóttur sinnar á hverjum degi frá því að hún hvarf úr ávaxtasölu hans fyrir 24 árum síðan. CFP
Kínverskur maður hefur aftur komist í samband við dóttur sína eftir að hafa leitað hennar í um aldarfjórðung. Til að auðvelda sér leitina ákvað maðurinn, Wang Mingqing, meira að segja að skipta um starfsvettvang og gerast leigubílstjóri, í von um að dóttir hans myndi einhvern tímann setjast upp í bílinn.

Það kom þó aldrei til þess heldur hafði dóttir hans, Qifeng, að lokum samband við Wang eftir að hafa rekist á fréttir af honum á netinu. Sagan hefur farið sem eldur í sinu um Kína og fagna fjölmargir Kínverjar endurfundunum, sem áttu sér stað í dag.

Qifeng hvarf þegar hún var aðeins þriggja ára gömul ef marka má breska ríkisútvarpið. Wang og eiginkona hans störfuðu á þeim tíma sem ávaxtasölumenn og áttuðu sig á því við lok eins vinnudagsins að dóttir þeirra væri horfin.

Hjónin vörðu næstu árum í að leita hennar í borginni Chengdu, þar sem þau bjuggu og störfuðu, og auglýstu eftir henni í blöðum og í smáauglýsingum á netinu. Þau yfirgáfu aldrei borgina í leit sinni enda trúðu þau því að Qifeng myndi að lokum rata til þeirra.

Það var svo árið 2015 sem Wang ákvað að gerast leigubílstjóri til að auka líkurnar á endurfundunum. Hann kom fyrir auglýsingu í bíl sínum og lét alla farþega sína fá lítinn dreifimiða með upplýsingum um Qifeng. Hann átti þó enga mynd af dóttur sinni heldur myndskreytti auglýsingarnar og dreifimiðana með myndum af hinum dætrum sínum, sem hann sagði að litu út eins og Qifeng.

Þessi herferð Wangs vakti fljótt athygli þarlendra fjölmiðla. „Einn daginn mun dóttir mín kannski sitja í bílnum!“ er haft eftir Wang í kínverskum miðlum.

Kang Ying sendi Wang Mingqing mynd af sér. Augljós líkindi segir pabbinn.CFP
Það var svo í fyrra sem lögreglan fékk teiknara til að rissa upp mynd sem sýndi Qifeng eins og hún gæti litið út sem fullorðin kona. Leit Wangs hafði sem fyrr segir vakið mikla athygli og fór myndin því á mikið flug á netmiðlum.

Í mörg þúsund kílómetra fjarlægð rakst kona að nafni Kang Ying á myndina og furðaði sig á því hversu lík hún væri teikningunni.

Hún setti sig því í samband við Wang fyrr á þessu ári og áttuðu þau sig fljótt á því að þau ættu ýmislegt sameiginlegt. Til að mynda væru þau bæði með ör á enninu og þá ætti þeim einnig til að verða mjög óglatt þegar þau grétu.

Því ákváðu þau að taka DNA-próf og niðurstöðurnar voru eins afgerandi og þær verða. Kang Ying reyndist vera Qifeng.

Feðginin hittust í morgun í fyrsta skipti í 24 ár og segist Wang vera himinlifandi með endurfundina. Kínverskir miðlar segja jafnframt frá því að Kang Ying hafi alist upp í um 20 kílómetra fjarlægð frá heimili foreldra hennar. Hvernig hún rataði þangað liggur þó enn ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×