Erlent

Unglingsstúlka myrt í Lundúnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjölmargir íslenskir fótboltaáhugamenn bera taugar til Tottenham-hverfisins í Lundúnum.
Fjölmargir íslenskir fótboltaáhugamenn bera taugar til Tottenham-hverfisins í Lundúnum. Google Maps
Sautján ára stúlka var skotin til bana í norðurhluta Lundúna í gærkvöldi. Lögregla var send að Chalgrove Road, sem liggur í Tottenham-hverfinu, um klukkan 21:30 að staðartíma eftir að tilkynning hafði borist um skothvelli.

Þar fannst stúlkan í blóði sínu og var úrskurðuð látin á sjúkrahúsi um klukkustund síðar.

Þá liggur 16 ára strákur þungt haldinn á sjúkrahúsi í austurhluta borgarinnar eftir að hafa verið skotinn í annarri árás, sem jafnframt átti sér stað í gærkvöldi í Lundúnum. Annar drengur á táningsaldri var jafnframt stunginn með eggvopni.

Sérstaklega er minnst á árásirnar í gærkvöldi á vef breska ríkisútvarpsins nú í morgun vegna nýútkominnar skýrslu um ofbeldi í höfuðborginni. Meðal niðurstaðna hennar voru tölur sem benda til að fleiri morð hafi verið framin í Lundúnum í febrúar og mars á þessu ári en í New York á sama tímabili.

Lögreglan segist ekki vita á þessu stigi málsins hvort árásir gærkvöldsins tengist. Málin séu til rannsóknar og hefur aðstandendum stúlkunnar verið greint frá örlögum hennar.

Enginn hefur verið handtekinn vegna árásanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×