Enski boltinn

Vonast til að kaupa Wembley í sumar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Milljarðamæringurinn Shahid Khan er stórhuga sem fyrr.
Milljarðamæringurinn Shahid Khan er stórhuga sem fyrr. vísir/getty
Milljarðamæringurinn Shahid Khan, eigandi Fulham og NFL-liðsins Jacksonville Jaguars, er að reyna að kaupa þjóðarleikvang Englendinga, Wembley.

Enskir miðlar segja að hann hafi boðið 900 milljónir punda, eða 127 milljarða króna, í völlinn.

„Þetta tilboð er mjög gáfulegt fyrir okkur. Þá er ég að tala um Jaguars, NFL og Wembley. Ég er mjög bjartsýnn á að þetta gangi upp,“ sagði Khan en hann vonast til þess að viðræðurnar taki ekki lengur en tólf vikur.

NFL-liðið hans hefur verið fastagestur á Wembley undanfarin ár og Khan er að íhuga að hreinlega flytja liðið til London. Hann sér mikla tekjumöguleika í því enda er mikill áhugi á NFL-leikjunum í London á hverju ári.

Ef Khan fær að kaupa völlinn þá mun enska knattspyrnusambandið samt halda rétti sínum til þess að spila landsleiki Englands á vellinum. Enska sambandið gæti svo gert margt við þessa peninga sem Khan vill borga fyrir völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×