Enski boltinn

Kane setur spurningamerki við andlegu hlið Englendinga

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Harry Kane og Gylfi Þór Sigurðsson eigast hér við á EM 2016.
Harry Kane og Gylfi Þór Sigurðsson eigast hér við á EM 2016. Vísir/Getty
Harry Kane segir fótboltasamfélagið í Englandi glíma við andlega veikleika eftir að enska knattspyrnusambandið sendi út tíst sem gerði grín að honum.

Tístið kom eftir sigur Manchester United á Tottenham í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á dögunum þar sem Chris Smalling var sagður vera með Kane í vasanum.

„Þetta tíst var kjánalegt, við vitum það öll,“ sagði Kane við ESPN. „Ég talaði við stjórann um þetta og hann spurði hvort þetta væri gert í öðrum löndum og svarið er líklega ekki.“

„Það var sent fyrir tveimur vikum síðan og ég er ekkert að velta mér upp úr því lengur. Ég held áfram með mitt líf og lít fram á veginn.“

Þá hefur Kane verið harkalega gagnrýndur á samfélagsmiðlum fyrir að segja mark sem skráð var á Christian Eriksen, liðsfélaga sinn hjá Tottenham, vera í raun hans mark.

„Það er auðveldara fyrir stuðningsmennina að stríða leikmönnum Englands og gera grín að þeim og þá er hægt að segja bara „við sögðum ykkur þetta,“ ef okkur gengur illa á heimsmeistaramótinu.“

„Þetta er andlegur veikleiki, en svona er staðan. Sem lið erum við einbeittir á hvað við þurfum að gera og við trúum að við getum unnið þau verkefni sem við förum í, heimsmeistaramótið er ekkert öðruvísi,“ sagði Harry Kane.


Tengdar fréttir

FA biðst afsökunar á tísti um Kane

Enska knattspyrnusambandið, FA, hefur beðið Tottenham og Manchester United afsökunar á tísti sem sambandið sendi út eftir undanúrslitaleik liðanna í ensku bikarkeppninni á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×