Innlent

Mannréttindadómstóllinn vísar kæru BHM frá

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mannréttindadómstóll Evrópu telur íslenska ríkið ekki hafa brotið í bága við ákvæði dómstólsins.
Mannréttindadómstóll Evrópu telur íslenska ríkið ekki hafa brotið í bága við ákvæði dómstólsins. Vísir/EPA
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að vísa frá kæru sem Bandalag háskólamanna lagði fram árið 2015 fyrir hönd 18 aðildarfélaga vegna lagasetningar sem bannaði verkfall nokkurra aðildarfélaga Bandalangs háskólamanna sama ár.

Mannréttindadómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að lagasetningin hafi ekki brotið í bága við ákvæði MDE um félagafrelsi og þá hafi lagasetningin ekki heldur brotið í bága við meðalhófsregluna.

Í öllum meginatriðum er tekið undir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands sem kvað upp dóm sinn í ágúst 2015. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að lagasetningin hefði verið nauðsynleg til að tryggja almannaheill; rétt borgara til heilbrigðisþjónustu.

Lög á Alþingi voru samþykkt 13. júní 2015 sem bönnuðu verkfall aðildarfélaga BHM. Bandalagið taldi að með lagasetningu Alþingis hefði verið brotið gegn Stjórnarskránni og Mannréttindadómstólnum á grundvelli þess að verkfallsréttur væri löghelgað úrræði til að knýja á um kjarasamninga.

Í kjölfar lagasetningarinnar höfðaði BHM mál gegn íslenska ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem sýknaði ríkið af kröfum BHM í júlí 2015. Í ágúst staðfest Hæstiréttur Íslands dóminn. Fulltrúar Bandalags háskólamanna ákváðu í framhaldinu af því að kæra íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir hönd þessa átján aðildafélaga sinna.

Í tilkynningu frá BHM segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður bandalagsins, að það hefði verið mikilvægt að fá úr þessu skorið og hún virðir niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×