Innlent

Um ein milljón fiska í húsinu sem brann

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá vettvangi eldsvoðans í Ölfusi í nótt.
Frá vettvangi eldsvoðans í Ölfusi í nótt. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Mikið tjón varð þegar eldur kom upp í fiskeldisvinnslu í landi Núpa í Ölfusi í nótt. Eldsupptök eru rakin til rafmótors við fóðurgjafabúnað en um ein milljón fiska var í húsinu þar sem eldurinn kom upp. Þetta staðfestir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Íslandsbleikju, í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.

Hann segir mestu máli skipta að starfsfólki hafi ekki orðið meint af en ekkert fólk var á staðnum þegar eldurinn kom upp. Þá segir Jón Kjartan of snemmt að segja til um það að svo stöddu um hversu mikið tjón sé að ræða. Í ljós komi á næstu dögum hvort sé í lagi með fiskinn en megnið af þeim fiski sem var í húsinu þar sem eldurinn kom upp komst lífs af að sögn Jóns Kjartans.

Líkt og fram hefur komið barst viðbragðsaðilum tilkynning um eldinn upp úr klukkan hálfeitt í nótt en ljóst var þegar slökkvilið bar að garði að eldurinn hafði þá logað í nokkurn tíma og talsvert var um skemmdir. Brunavarna Árnessýslu segir að tekist hafi að slökkva allan eld um klukkan hálf þrjú í nótt. Nokkuð vel hafi gengið að ráða niðurlögum eldsins þótt aðgengi að vatni hafi verið takmarkað.

„Það vatn sem var hægt að komast í, það var fullt af fiski líka þannig að það var ekki eins einfalt að ná í vatnið og við héldum í upphafi. En við fengum strax þrjá tankbíla á staðinn og svo erum við með kerrur með lausum dælum,“ sagði Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við fréttastofu á vettvangi eldsvoðans í nótt.

Lögregla og Mannvirkjastofnun fara með rannsókn málsins en eldsupptök eru rakin til rafmótors við fóðurgjafabúnað og hefur hluti þess búnaðar verið haldlagður og sendur til frekari rannsóknar hjá sérfræðingum Mannvirkjastofnunar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×