Erlent

Hinsegin fólk hrætt við að haldast í hendur

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Rúmlega 100 þúsund manns tóku þátt í rannsókninni.
Rúmlega 100 þúsund manns tóku þátt í rannsókninni. BBC
Ný rannsókn í Bretlandi sýnir að tveir þriðju hinsegin fólks þar í landi forðist að haldast í hendur á almannafæri vegna ótta um neikvæð viðbrögð. Breska ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðaráætlun til að bæta líf hinsegin fólks.

Rannsóknin sýndi að hinsegin fólk væri líklegra til að vera óánægt í lífinu en restin af bresku þjóðinni. Rúmlega hundrað þúsund manns tóku þátt í rannsókninni sem var framkvæmd á þremur mánuðum á síðasta ári, að frumkvæði ríkisstjórnarinnar.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði niðurstöður rannsóknarinnar varpa nýju ljósi á líf og aðstæður hinsegin fólks í Bretlandi og kynnti 75 þrepa aðgerðaráætlun. Áætluninni er ætlað að uppræta mismunun og bæta líf hinsegin fólks í Bretlandi.

Í henni felst meðal annars að uppræta samtalsmeðferðir sem ganga út á það að lækna hinsegin fólk af sinni kynhneigð eða kynvitund, en fimm prósent svarenda hafði verið boðin slík meðferð og tvö prósent höfðu reynt slíkt.

Aðgerðarsinnar í Bretlandi taka áætlun ríkisstjórnarinnar að mestu leyti vel en mörgum þykir hún ekki ganga nógu langt. Benti einn á að ekkert stæði í henni um málefni hinsegin flóttafólks eða um sanngirnisbætur til þeirra samkynhneigðu og tvíkynhneigðu karlmanna sem dæmdir voru í fangelsi fyrir kynhneigð sína þegar samkynhneigð var bönnuð í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×