Innlent

Reiknar með að ná inn tíu tonnum af rabarbara í hús

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það eru gæðastundir hjá konunum í Lions klúbbnum Emblu á Selfossi þegar þær koma saman til að skera niður rabarbara hjá rabarbarabóndanum Kjartani Ágústssyni á Löngumýri á Skeiðum. Bóndinn reiknar með að ná um 10 tonnum af rabarbara í hús á næstu vikum.

Það er líf og fjör inn í pökkunarhúsinu hjá rabarbarabóndanum á Löngumýri á Skeiðum því þar eru hressar Emblu konur að skera niður rabarbarann hans, það er mikið hlegið og spjallað við vinnuborðin.

Við erum búin að vera hérna í held ég 12 ár, 12 sumur, ég man ekki hvernig þetta byrjaði, en við tökum öll fjáröflunarverkefni sem okkur bjóðast“ segir Þuríður Fjóla Pálmadóttir, meðlimur Emblu.

Ingibjörg Jóna Steindórsdóttir, meðlimur Emblu segir: „Það er bara svo gaman a koma hérna þetta er sumarvinnan okkar, þegar Kjartan hringir eða hóar, þá er komið sumar, jafnvel þó það vanti sólina, það er allt í lagi. Það er alltaf gaman hjá okkur Emblunum, við erum mjög sérstakar sko, ég vil að það komi fram.“

Þeir eru engir smá smíði þessir rabarbarar hjá honum Kjartani en hann reiknar með að taka upp um 10 tonn af rabarbara á næstu vikum.

Kjartan segist framleiða rabarbarakaramellur og nokkrar sultu tegundir. Aðspurður hvort að hann sé ekki eini rabarbarabóndi landsins svarar hann: „Ég veit það ekki, en ég er örugglega stærstur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×