Erlent

Fimmtán ára stúlka flúði flóttamannamiðstöð

Sylvía Hall skrifar
Stúlkan flúði þegar hún var á leið í augnskoðun.
Stúlkan flúði þegar hún var á leið í augnskoðun. Vísir/Getty
Fimmtán ára gömul stúlka faldi sig á bifreiðaverkstæði eftir að hún flúði flóttamannamiðstöð í Flórída. Stúlkan lagði á flótta þegar starfsmenn miðstöðvarinnar ætluðu með hana í augnskoðun.

Atvikið átti sér stað fyrir utan heilsugæslu á föstudag, en þegar stúlkan steig út úr bílnum hljóp hún frá starfsmönnum. Lögregla hóf leit að stúlkunni og starfsmaður verkstæðisins gerði lögreglumönnum viðvart um stúlkuna, sem faldi sig á bak við verkfærakassa. 

Eigandi verkstæðisins sagði í samtali við Washington Post að stúlkan hafði hlaupið grátandi inn á verkstæðið, falið sig út í horni og verið þar grátandi í rúman klukkutíma. Hún sagðist ekki vita hvar foreldrar sínir væru og það hafi verið augljóst að hún væri mjög hrædd.

Hann segist hafa fundið til með stúlkunni, en hafi verið knúinn til þess að gera lögreglu viðvart þar sem hún væri öruggari í þeirra höndum frekar en ein og allslaus á götum borgarinnar. Hann tekur þó fram að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld. 

Flóttamannamiðstöðin þar sem stúlkan dvelur hýsir yfir þúsund börn sem eru á aldrinum þrettán til sautján ára. Sum þeirra voru aðskilin frá foreldrum sínum við landamærin og dvelja þau þar að meðaltali í 25 daga. Stúlkan var færð aftur í miðstöðina þegar hún fannst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×