Erlent

Taldi stórleikara vera innbrotsþjóf

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ving Rhames hefur leikið í fjölda stórmynda.
Ving Rhames hefur leikið í fjölda stórmynda. Vísir/Getty
Leikarinn Ving Rhames segir að lögreglumenn hafi miðað að honum byssu á heimili hans, eftir að nágranni hafði tilkynnt um „stóran svartan mann“ sem brotist hafi inn.

„Ég opna hurðina og þá er rauður ljóspunktur í andlitinu á mér,“ sagði leikarinn, sem er hvað þekktastur yfir leik sinni í myndum á borð við Mission: Impossible og Pulp Fiction, í samtali við þarlenda miðla í gær. Lögreglumaðurinn hafi miðað 9 millímetra skammbyssu að honum og farið fram á að hann myndi setja hendur upp í loft.

Atvikið á að hafa gerst fyrr á þessu ári. Rhames sagði að þó augnablikið hafi verið taugatrekkjandi hafi ástandið fljótt róast eftir að lögreglustjórinn bar kennsl á leikarann.

„Hann sagði að um mistök hefðu verið að ræða og baðst afsökunar,“ sagði Rhames og bætti við að málið tæki enn á hann. „Helstu áhyggjur mínar eru, sem ég tjáði þeim [lögreglumönnunum], að hvað hefði gerst ef þetta hefði verið strákurinn minn og hann hefði haldið á stýripinna sem þeir hefðu haldið að væri byssa?“ spurði leikarinn.

Lögreglan hafi tjáð Rhames að nágranni hans hafi gert embættinu viðvart vegna manns sem væri að brjótast inn í hús leikarans. Þegar Rhames og lögreglumennirnir hafi hins vegar spurt nágrannann út í málið hafi hann neitað öllu.

Rhames segir það agalegt að hann, svartur maður á besta aldri, get ekki verið heima hjá sér, „í körfuboltastuttbuxum,“ án þess að eiga á hættu á að lögreglan oti byssu framan í hann. 

Lögreglan í Santa Monica, sem brást við tilkynningunni, hefur ekki tjáð sig um málið við fjölmiðla vestanhafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×