Erlent

Þrír létust í árás á ljósmæðramiðstöð í Afganistan

Sylvía Hall skrifar
Frá vettvangi árásarinnar í morgun.
Frá vettvangi árásarinnar í morgun. Vísir/Getty
Í það minnsta þrír létu lífið og átta slösuðust þegar vígamenn réðust á þjálfunarmiðstöð fyrir ljósmæður í Jalalabad í Afganistan í morgun. Öryggissveitir hersins náðu yfirtökum á ástandinu eftir sex klukkutíma skotbardaga.

Vígamennirnir höfðu sprengt sprengiefni og hófu skothríð í miðstöðinni rétt fyrir hádegi að staðartíma. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni, en vígamenn á vegum íslamska ríkisins hafa lýst yfir ábyrgð á nýskeðum árásum á svæðinu. Talíbanar neita því að hafa átt þátt í árásinni.

61 ljósmóður og tveimur börnum var bjargað úr miðstöðinni, en tveir öryggisverðir og bílstjóri létu lífið í árásinni. Þrír meðlimir öryggissveita særðust ásamt þremur borgurum og tveimur starfsmönnum miðstöðvarinnar.

Einn árásarmannanna lést þegar hann sprengdi sprengjuvesti í miðstöðinni en annar var drepinn af öryggissveitum.

Miðstöðin sér um tveggja ára þjálfun fyrir verðandi ljósmæður á svæðinu. Ekki er vitað hvers vegna ráðist var á miðstöðina, en í landinu eru margir andvígir því að ógiftar konur vinni utan heimilis.

Í Afganistan er mikil vöntun á ljósmæðrum og á meirihluti fæðinga í landinu sér stað án hjálpar ljósmóður. Þá er hlutfall dauðsfalla við fæðingu með því hæsta í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×