Enski boltinn

Lacazette: Arsenal þarfnast leiðtoga

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lacazette og Ramsey í leik með Arsenal á síðasta ári
Lacazette og Ramsey í leik með Arsenal á síðasta ári Vísir/Getty
Nokkuð hefur verið um breytingar innan herbúða Arsenal í sumar og þær stærstu eru án efa stjóraskiptin. Í fyrsta skipti í 22 ár mun Arsene Wenger ekki standa á hliðarlínunni á Emirates vellinum. Framherjinn Alexandre Lacazette segir það lífsnauðsynlegt fyrir liðið að hafa leiðtoga inni á vellinum.

Walesverjinn Aaron Ramsey á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal og hann sagði í vikunni að hann væri ekki viss hvernig framtíð hans yrði þar sem umboðsmaður hans er enn í samningsviðræðum við Arsenal.

Nýi knattspyrnustjórinn Unai Emery hefur þó sagt að hann vilji Ramsey hjá félaginu.

„Aaron er goðsögn innan félagsins. Hann hefur verið hjá félaginu í nærri 10 ár,“ sagði Frakkinn Lacazette sem kom til Arsenal síðasta sumar.

„Hann gerir liðið betra. Hann kemur með stöðugleika, gæði og leiðtogahæfileika inn í liðið. Hann er fyrirmynd fyrir alla ungu leikmennina svo við þurfum að hafa hann í liðinu,“ sagði Lacazette.

Félagsskiptaglugginn í ensku úrvalsdeildinni lokar fyrr en venjulega í ár eftir að ákveðið var að loka honum áður en deildin hefst. Leikmenn í ensku deildinni geta þó farið til liða í öðrum löndum þar sem glugginn er enn opinn eftir að lokað verður á félagsskipti í Englandi.

Arsenal hefur leik í deildinni sunnudaginn 12. ágúst á stórleik gegn Englandsmeisturum Manchester City á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×