Erlent

Íslenskum fjárhundi bjargað eftir 12 mánuði í búri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eigendur Quincy höfðu byggt utan um hann búr þar sem hann hafði hírst nánast alla sína ævi.
Eigendur Quincy höfðu byggt utan um hann búr þar sem hann hafði hírst nánast alla sína ævi. Aðsend
„Hann er ótrúlega elskulegur, hlýðinn og frábær með öðrum hundum. Hann er í raun algjör demantur.“ Svona er íslenska fjárhundinum Quincy lýst sem bjargað var úr búri í kanadísku borginni Surrey á dögunum.

Eigendur Quincy, sem er sextán mánaða gamall, höfðu læst hann inni í heimagerðu búri þar sem hundurinn hafði hírst undanfarið ár - án nokkurrar hreyfingar. Það var ekki fyrr en nágrannar höfðu ítrekað kvartað undan gelti hundsins sem aðstæður hans komu í ljós.

Það féll svo í skaut dýraverndunarsamtakanna Lower Mainland Humane Society að taka hundinn í fóstur, þar sem Quincy dvelur nú í góðu yfirlæti. Í samtali við Vísi segir starfsmaður samtakana að Quincy spjari sig nokkuð vel þrátt fyrir fyrrnefnda prísund.

„Þetta er frábær hundur, eigendurnir áttu hann ekki skilið,“ segir starfsmaðurinn Yuana. Hún útskýrir fyrir blaðamanni að eigendur hundsins hafi ekki viljað hafa hann innandyra og því ákveðið að geyma hann í búrinu - þrátt fyrir að garður þeirra sé girtur af.

Þar að auki hafi það verið hlutverk 12 ára dóttur þeirra að fara út að ganga með hundinn. Stúlkan hafi þó áttað sig fljótt á því að Quincy væri of kraftmikill fyrir hana og því hafi hún að endingu hætt að viðra hundinn.

Þá tók við 12 mánaða einangrun í búrinu, þangað sem eigendurnir komu aðeins til að gefa hundinum að borða. Í myndbandinu hér að ofan, sem Yuana tók þegar hún sótti Quincy, má enda sjá hvað hundurinn er spenntur að fá einhvern félagsskap. „Hann var svo leiður og einmana,“ segir Yuana.

Hún leitar nú að nýjum eigendum fyrir hundinn sem eru tilbúnir til að fara út að ganga með hann reglulega - „og lofa því að loka hann aldrei aftur í búri.“ Hann hafi lítil samskipti haft við önnur dýr og menn og því þurfi að þjálfa hann vel.

Þrátt fyrir það segir Yuana að hundurinn sé gæðablóð; einfaldur í umgengni, blíður og gæfur.

Hér að neðan má sjá myndbönd af því þegar Quincy hitti aðra hunda sem dýraverndunarsamtökin hafa bjargað á síðustu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×