Enski boltinn

Gera grín að kaupverði Gylfa og Richarlison í samanburði við Ronaldo

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór eltir Ronaldo uppi á EM í Frakklandi.
Gylfi Þór eltir Ronaldo uppi á EM í Frakklandi. vísir/getty
Everton gekk í gær frá kaupum á brasilíska vængmanninum Richarlison frá Watford fyrir 40 milljónir punda en með árangurstengdum greiðslum getur kaupverðið endað í 50 milljónum punda.

Richarlison er 21 árs gamall og á að baki eina leiktíð í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði fimm mörk í 38 leikjum fyrir Watford á síðasta tímabili. Hann fór vel af stað en skoraði ekki frá því í nóvember og þar til mótið var búið.

Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, vildi ólmur vinna áfram með Brassanum og fékk því yfirmenn sína til að kaupa leikmanninn fyrir þessa háu upphæð frá Watford.

Einu sinni var.
Everton opnaði einnig veskið upp á gátt síðasta sumar þegar að það gerði Gylfa Þór Sigurðsson að dýrasta leikmanni félagisins frá upphafi en íslenski landsliðsmaðurinn kostaði Everton 45 milljónir punda.

Richarlison og Gylfi kosta því í heildina 95 milljónir punda þegar að allt er tekið til en það er rétt undir kaupverði Cristiano Ronaldo frá Real Madrid til Juventus.

Facebook-síða götublaðsins The Sun bendir á þessa staðreynd í léttri skopmynd af kaupum Everton en þar er tvískipt mynd af Gylfa og Richarlison annars vegar og Ronaldo hinsvegar.

Við bláliðana stendur: „Þegar að Everton eyðir 100 milljónum punda,“ og fyrir neðan, við myndina af Ronaldo, stendur: „Þegar að Juventus eyðir 100 milljónum punda.“

The Sun hefur mikið út á kaupverð Richarlison að setja en í dag bætti það við samsettri mynd af Richarlison og nokkrum frábærum fótboltamönnum á borð við Zidane, Figo, Neymar og Mesut Özil. Við myndina stendur: „Það sem 50 milljónir punda hefðu getað fært þér.“

Ronaldo eða Gylfi og Richarlison?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×