Enski boltinn

Evrópumeistari til liðs við nýliðana

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Nýjasti Úlfurinn sáttur
Nýjasti Úlfurinn sáttur vísir/getty
Nýliðar Wolverhampton Wanderers hafa gengið frá kaupum á portúgalska miðjumanninum Joao Moutinho. Þessi reynslumikli miðjumaður kemur til nýliðana frá Monaco í Frakklandi og er kaupverðið talið vera í kringum 5 milljónir punda.

Moutinho er 31 árs gamall og á ansi farsælan feril til þessa, með Sporting og Porto í heimalandinu þar sem hann vann deildina þrívegis áður en hann færði sig um set til Frakklands og hjálpaði Monaco meðal annars að vinna Ligue 1 tímabilið 2016/2017.

Þá er hann þriðji leikjahæsti landsliðsmaður Portúgals frá upphafi með 113 landsleiki en í efstu tveimur sætunum eru goðsagnirnar Luis Figo og Cristiano Ronaldo.

Moutinho lék sex leiki af sjö í liði Portúgala þegar þeir unnu EM í Frakklandi 2016.

Úlfarnir mæta með spennandi lið til leiks í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa sigrað B-deildina nokkuð örugglega á síðustu leiktíð.

Þeir mæta Gylfa Sigurðssyni og félögum í fyrstu umferð deildarinnar þann 11.ágúst næstkomandi á Molineaux leikvangnum í Wolverhampton.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×