Enski boltinn

Everton staðfestir kaupin á Richarlison sem verður dýrari en Gylfi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Richarlison ánægður í búningi Everton.
Richarlison ánægður í búningi Everton. vísir/getty
Everton staðfesti nú í kvöld að félagið hafi gengið frá samningum við Richarlison. Hann verður í treyju númer 30.

Richarlison kemur frá Watford til Everton en hann skrifar undir fjögurra ára samning við Bítlaborgarfélagið.

Hann ku hafa kostað Everton 40 milljónir punda en með aukagjöldum gæti kaupverðið endað í 50 milljónir punda er líða fer á samning Richarlison.

Hann gekk í raðir Watford í ágúst í fyrra þar sem hann skoraði fimm mörk í deildarkeppninni. Hann skoraði ekki eftir áramót og því löng markaþurrð hjá kappanum.

Hann er 21 árs Brassi sem ólst upp hjá Real Noroeste en spilaði svo í tvö með Atletico Mineira og tvö með Fluminense áður en hann færði sig til Englands.

Richarlison og Gylfi Þór Sigurðsson verða því samherjar á næstu leiktíð en Gylfi var dýrasti leikmaðurinn í sögu Everton. Enskir fjölmiðlar greina frá því að Richarlison verði nú sá dýrasti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×