Enski boltinn

Karius ekki látinn vita af komu Allison

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kaupin komu aftan að Karius.
Kaupin komu aftan að Karius. vísir/getty
Loris Karius, markvörður Liverpool, veit lítið um framtíð sína þessa dagana eftir komu brasilíska landsliðsmarkvarðarins Allison Becker frá Roma.

Karius er ekki sá vinsælasti á Anfield eftir mistökin í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor og hann hefur ekki verið að vinna fólk aftur á sitt band með ósannfærandi frammistöðum á síðustu dögum í æfingaleikjum á móti Tranmere og Dortmund.

Jürgen Klopp virðist ákveðinn í að hafa Karius ekki í markinu í byrjun móts og eyddi því 67 milljónum punda í Allison frá Roma sem varð með því dýrasti markvörður heims. Karius vissi ekki af komu hans.

„Enginn talaði við mig um þetta áður en af þessu varð. Þetta er augljóslega ekki besta staðan fyrir mig en að öðru leyti get ég lítið tjáð mig um þetta,“ sagði Karius við þýska fjölmiðla eftir tapið gegn Dortmund.

Þjóðverjinn gæti verið á útleið frá Liverpool sem hluti af hreinsun Klopps hjá félaginu, að því fram kemur í frétt á vef Independent. Hann er einn af sex leikmönnum sem gætu yfirgefið félagið fyri lok ágúst.

Ekki er búið að finna næsta dvalarstað markvarðarins en Divock Origi er sagður á leið til Valencia fyrir 27 milljónir punda. Þá er Danny Ings eftirsóttur en Liverpool skellti 20 milljóna punda verðmiða á hann.


Tengdar fréttir

Casillas tekur upp hanskann fyrir Karius

Loris Karius gerði mistök í 1-3 tapi Liverpool gegn Borussia Dortmund í æfingaleik liðanna í Bandaríkjunum í gærkvöldi og fékk að heyra það á samfélagsmiðlum í kjölfarið.

Dortmund kláraði Liverpool undir lokin

Borussia Dortmund fer vel af stað á undirbúningstímabili. Fyrir helgi lagði liðið Manchester City af velli og nú í kvöld unnu þeir 3-1 sigur á Liverpool í æfingarleik í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×