Enski boltinn

Puel segir ekki koma til greina að selja Maguire

Arnar Geir Halldórsson skrifar
60 milljón punda maður?
60 milljón punda maður? vísir/getty
Enski landsliðsmiðvörðurinn Harry Maguire er sagður vera efstur á óskalista Manchester United en enska stórveldið leitar logandi ljósi að nýjum miðverði.

Ásamt Maguire hafa Toby Alderweireld, Leonardo Bonucci og Jerome Boateng verið orðaðir við Man Utd að undanförnu en talið er að Maguire sé langdýrastur af þessum fjórum og hafa enskir fjölmiðlar greint frá því að Leicester verðmeti hann á rúmlega 60 milljónir punda.

Leicester borgaði 12 milljónir punda þegar félagið keypti Maguire frá Hull síðasta sumar en með þessum háa verðmiða vonast þeir væntanlega til að fæla stærri félög frá.

Maguire er 25 ára gamall og telur Claude Puel, stjóri Leicester, að hag hans sé best borgið hjá félaginu.

„Það er gott fyrir Maguire að halda áfram hjá Leicester. Þegar okkar leikmenn vekja áhuga annara liða þýðir það að við erum að gera vel og vinna gott starf. Það er mikilvægt að halda því áfram.“

„Þegar við fáum leikmennina sem voru á HM til baka munum við veita þeim tækifæri til að uppfylla sínar væntingar og ná góðum árangri í ensku úrvalsdeildinni,“ segir Puel.



Man Utd og Leicester mætast í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar föstudaginn 10.ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×