Enski boltinn

Yfirnjósnari Man Utd hættur eftir tilboð frá Zenit

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Aukið álag á Mourinho á leikmannamarkaðnum
Aukið álag á Mourinho á leikmannamarkaðnum vísir/getty
Javier Ribalta er hættur sem yfirnjósnari hjá enska stórveldinu Manchester United eftir að hafa gegnt starfinu í aðeins eitt ár.

Ribalta starfaði áður hjá Juventus þar sem hann vakti mikla athygli fyrir störf sín en færði sig um set til Manchester síðasta sumar.

Ribalta átti stóran þátt í sumarkaupum Man Utd á brasilíska miðjumanninum Fred frá Shakhtar Donetsk og portúgalska hægri bakverðinum Diogo Dalot frá Porto en er nú horfinn á braut.

Ástæðan fyrir uppsögninni er sú að þessum 37 ára Spánverja hefur boðist staða sem yfirmaður leikmannamála hjá Zenit St Pétursborg í Rússlandi að því er segir í frétt ESPN.

Búist er við því að Man Utd muni versla sér fleiri leikmenn áður en félagaskiptaglugginn lokar þann 10.ágúst næstkomandi en leit stendur yfir að miðverði og hafa þeir Harry Maguire, Leonardo Bonucci, Toby Alderweireld og Jerome Boateng verið nefndir til sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×