Erlent

19 ára stúlka myrt á lestarstöð í San Francisco

Sylvía Hall skrifar
Þetta er þriðja árásin á viku sem leiðir til dauða farþega í hraðvagnakerfi San Francisco.
Þetta er þriðja árásin á viku sem leiðir til dauða farþega í hraðvagnakerfi San Francisco. Vísir/Getty
Nia Wilson, 19 ára gömul stúlka, var myrt í hrottalegri árás á hana og systur hennar á lestarstöð í San Francisco á sunnudagskvöld. Karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um árásina.

Systurnar voru á heimleið og urðu fyrir árásinni þegar þær stigu úr lestinni í Oakland. Hinn 27 ára gamli John Cowell réðst að systrunum og stakk Niu í hálsinn. Ekki er vitað um áverka systur hennar.

Sjónarvottar segja atburðarrásina hafa verið hraða og þeir muni fátt annað en að hafa heyrt öskur og séð vegfarendur reyna að endurlífga hina 19 ára gömlu Niu.

Þetta er þriðja atvikið á viku veldur dauða farþega í hraðlestarkerfinu þar í borg, en í síðustu viku lést maður eftir að hafa verið kýldur og rekið höfuðið í gólfið. Annar lést eftir sýkingu í skurði sem hann hlaut eftir árás um borð í lestinni.

Dauði Niu Wilson hefur vakið mikla reiði í samfélaginu og vilja margir meina að þetta hafi verið hatursglæpur, en Nia var myrt af hvítum manni sem hefur áður verið dæmdur fyrir ofbeldisglæpi og vörslu fíkniefna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×