Erlent

Göngumennirnir 500 komnir niður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flestir náðu að koma sér niður af fjallinu af sjálfsdáðum.
Flestir náðu að koma sér niður af fjallinu af sjálfsdáðum. vísir/AP
Búið er að bjarga rúmlega 500 göngugörpum sem festust í hlíðum fjallsins Rinjani á Lombok-eyju í Indónesíu. Greint var frá háska þeirra í gær en öflugur jarðskjálfti, sem reið yfir landið á sunnudag, varð til þess að torvelda heimferð þeirra.

Jarðskjálftinn er talinn hafa orðið hið minnsta 16 að bana, þar af voru tveir í hópi göngufólsins, og rúmlega 330 eru særðir. Þar að auki hleypti skjálftinn af stað öflugum aurskriðum sem lögðust yfir aðalgönguleiðina niður af fjallinu.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því morgun að göngufólkið hafi flest náð að koma sér niður af sjálfsdáðum eftir að auga var komið á örugga gönguleið. Þá hafi þyrla sótt hluta hópsins.

Fjallið Rinjani er það næsthæsta í Indónesíu og vinsæll ferðamannstaður.

Jarðskjálftinn, sem mældist 6,4 að stærð, átti upptök sín um 50 kílómetra norðaustur af höfuðborginni Mataram. Rúmlega 60 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið en stærstur þeirra mældist 5,7.


Tengdar fréttir

Fimm hundruð í sjálfheldu í fjallshlíðum Rinjani

Rúmlega 500 göngugarpar eru fastir í hlíðum fjallsins Rinjani á Lombok-eyju í Indónesíu því mannskæður jarðskjálfti, sem reið yfir eyjuna árla sunnudagsmorguns, gat af sér skriður sem lokuðu gönguleiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×