Fótbolti

Besti ungi leikmaður Evrópu 2008 semur við tyrkneskt B-deildarlið þrítugur að aldri

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Anderson (8) var í stóru hlutverki í stórkostlegu liði Man Utd fyrir tíu árum síðan
Anderson (8) var í stóru hlutverki í stórkostlegu liði Man Utd fyrir tíu árum síðan vísir/getty
Tyrkneska B-deildarliðið Adana Demirspor hefur heldur betur nælt sér í liðsstyrk fyrir komandi leiktíð þar sem fyrrum miðjumaður Manchester United og besti ungi leikmaður Evrópu árið 2008 hefur samið við félagið.

Um er að ræða Brasilíumanninn brosmilda Anderson sem var í miklum metum hjá stuðningsmönnum Man Utd fyrir nokkrum árum síðan en óhætt er að segja að ferill kappans hafi ekki náð þeim hæðum sem búist var við.

Anderson gekk í raðir Man Utd frá Porto sumarið 2007 og þrátt fyrir að vera aðeins tvítugur að aldri lék hann nokkuð stórt hlutverki í frábæru liði Man Utd leiktíðina 2007/2008 þegar hann hjálpaði liðinu að vinna bæði ensku úrvalsdeildina og Meistaradeild Evrópu. Alls vann Anderson fjóra Englandsmeistaratitla á Old Trafford.

Hann var á mála hjá Man Utd allt til ársins 2015 þó tækifærunum hafi fækkað með hverju árinu og fór að lokum svo að hann yfirgaf Man Utd endanlega og hélt til heimalandsins þar sem hann samdi við Internacional í ársbyrjun 2015.

Anderson náði ekki að festa sig í sessi í brasilísku úrvalsdeildinni og var samningi hans við Internacional rift fyrr á þessu ári.

Nú er Anderson, þrítugur að aldri, búinn að finna sér nýtt lið og hefur samið við Adana Demirspor sem leikur í tyrknesku B-deildinni en liðið hafnaði í 14.sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

Tveir Íslendingar munu mæta Anderson í vetur en Kári Árnason samdi nýverið við Genclerbirligi og þá er Theodór Elmar Bjarnason hjá Elazigspor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×