Erlent

Tugir handteknir á andmarxískum mótmælafundi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Berkeley hefur áður verið vettvangur mikilla mótmæla. Hér má sjá stuðningsmenn og andstæðinga Donalds Trump Bandaríkjaforseta takast á.
Berkeley hefur áður verið vettvangur mikilla mótmæla. Hér má sjá stuðningsmenn og andstæðinga Donalds Trump Bandaríkjaforseta takast á. Vísir/Getty
Tugir voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í Berkeley í Kaliforníu í gær þegar til átaka kom á milli mótmælenda á „andmarxískum“ mótmælafundi.

Að því er fram kemur í yfirlýsingu frá lögreglunni voru mótmælendurnir handteknir fyrir ólöglegan vopnaburð en fyrir mótmælin hafði lögregla bannað ýmis konar hluti, svo sem hafnaboltakylfur og ísaxir, til að koma í veg fyrir ofbeldi. Lögreglan lagði hald á þónokkurt magn af slíku á mótmælunum.

Þrír særðust lítillega í mótmælunum þegar mótmælendur köstuðu sprengiefni í átt að lögreglu.

Í yfirlýsingu lögreglunnar segir: „Þrátt fyrir að hundruð mótmælenda hafi verið saman komin, og margir mótmælenda hafi borið vopn og sýnt af sér árásargjarna hegðun, urðu engin alvarleg meiðsl á fólki, hvorki almenningi né opinberum starfsmönnum.“

Lögreglan bætti þó við að mótmælendur hefðu sýnt af sér öfgakennda hegðun, enda hefðu þeir valdið umtalsverðum skemmdum á 21 bíl, skorið á dekk farartækja og gengið svo langt að kveikja í einum bíl.

Í kringum 500 manns fylktu liði á mótmælin, sem eiga rætur að rekja til mótmælafundar annars staðar í borginni, en hann bar yfirskriftina „No to Marxism in America,“ eða „Nei við Marxisma í Bandaríkjunum.“

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×