Fótbolti

Fyrrum leikmaður West Ham tekur tímabundið við Argentínu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Scaloni lék með West Ham þegar félagið var í eigu Íslendinga
Scaloni lék með West Ham þegar félagið var í eigu Íslendinga vísir/getty
Lionel Scaloni mun stýra argentínska landsliðinu í tveimur vináttuleikjum í næsta mánuði en argentínska knattspyrnusambandið er enn í leit að arftaka Jorge Sampaoli sem var látinn taka pokann sinn eftir HM í Rússlandi.

Scaloni var hluti af þjálfarateymi Argentínu í Rússlandi en hann mun stýra liðinu í leikjum gegn Gvatemala og Kólumbíu í september og mun Pablo Aimar, fyrrum miðjumaður argentínska landsliðsins, vera hans helsti aðstoðarmaður í leikjunum tveimur en Aimar er þjálfari U17 ára landsliðs Argentínu.

Scaloni er fertugur Argentínumaður sem lék sjö landsleiki fyrir Argentínu á leikmannaferli sínum en hann spilaði lengstum með Deportivo La Coruna í spænsku úrvalsdeildinni.

Hann lék einnig með West Ham í ensku úrvalsdeildinni í nokkra mánuði en hann var fenginn að láni til Lundúnarliðsins í janúar 2006. Þá voru íslenskir fjárfestar undir forystu Björgólfs Guðmundssonar og Eggerts Magnússonar nýbúnir að kaupa West Ham og lék Scaloni nokkra leiki fyrir þá félaga leiktíðina 2005/2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×