Fótbolti

Musa frá Leicester til Sádi-Arabíu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Musa í baráttu við Aron Einar Gunnarsson
Musa í baráttu við Aron Einar Gunnarsson vísir/getty
Nígeríski sóknarmaðurinn Ahmed Musa hefur yfirgefið enska úrvalsdeildarfélagið Leicester City og er búinn að semja við Al-Nassr í Sádi-Arabíu.

Musa sem er 25 ára gamall gerir fjögurra ára samning við Al-Nassr og er kaupverðið talið vera 17,5 milljónir punda.

Musa var um tíma dýrasti leikmaður í sögu Leicester þegar hann var keyptur til félagsins frá CSKA Moskva á 16 milljónir punda sumarið 2016. Hann náði hins vegar aldrei að festa sig í sessi hjá Leicester og lék aðeins 33 leiki fyrir liðið og skoraði í þeim 5 mörk áður en hann var lánaður aftur til CSKA á seinni hluta síðustu leiktíðar og skoraði hann 6 mörk í 10 leikjum í rússnesku úrvalsdeildinni.

Eins og Íslendingar muna líklega flestir var Musa hluti af nígeríska landsliðinu á HM í Rússlandi þar sem hann gerði bæði mörk Nígeríu í 2-0 sigri á strákunum okkar í Volgograd.

Musa var kynntur til leiks hjá Al-Nassr með mögnuðu myndbandi sem sjá má hér að neðan en þar má meðal annars sjá mörk hans gegn Íslandi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×